• 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg
  • 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg
  • 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg
  • 01.jpg
  • 02.jpg
  • 03.jpg
  • 04.jpg

SIX DAYS EUROTRIP 2012 - ÁFRAM ÍSLAND !

Hér kemur splunkuný romsa héðan frá Þýskalandinu, algjör snilld að sjá allar heimsóknirnar á síðustu frétt og "comment-in" ;) !

Dagur 11 - 22.09.12

Ég sofnaði svo seint eftir fréttaskrifin að ég rankaði ekki við mér fyrr en að Gulli, Gunni og Gústi börðu á dyrnar hjá mér rétt uppúr 9. Restin fylgdi svo í kjölfarið og það var ekkert stress á okkur en það sem var framundan var fundur með KTM þjónustuliðinu klukkan 10. Við röltum yfir í KTM þjónustutjaldið um 10 og fljótlega hófst fundurinn þar sem farið var yfir hvernig þjónustan virkar, hvað þeir gera fyrir okkur og svo gáfu mekkarnir góð ráð með hvað væri sniðugt að gera til að auðvelda og flýta fyrir í viðgerðarstoppunum í byrjun og lok dags. Þegar öllum okkar spurningum var svarað var ákveðið að drífa sig í smá verslunarleiðangur til að sækja smotterí sem vantaði og svo þurfti hótel liðið að renna út á hótel og sækja dót til að setja í kassa sem fara út á þjónustustaðina í brautinni með KTM gæjunum, en á fundinum kom í ljós að dótið sem við vildum setja í það þurfti að vera komið til þeirra fyrir klukkan 1 í dag. Við vorum allir mjög sáttir eftir fundinn og þessi þjónusta lítur mjög vel út og þjónustuliðið virtist allt liðlegt og hresst.

Í verslunarleiðangrinum sóttum við poka eða plastbox til að setja okkar dót í til að setja á KTM þjónustustaðina, en það var ítrekað að það þyrfti að merkja vel okkar poka eða box svo mekkarnir og við ættum auðveldara með að finna dótið okkar í þjónustustoppunum. Svo var brunað út á hótelið og strákarnir sóttu gleraugu, hanska o.fl. til að græja í poka eða box fyrir þjónustustaðina. Fyrstu tvo dagana eru 3 þjónustustaðir útí braut svo við þurftum að græja 3 skammta og setja í kassana sem fara út á staðina. Á meðan við strákarnir vorum í þessu "mission-i" var Tedda á liðstjórafundi uppí pitti. Á leiðinni frá hótelinu upp í pitt lentum við því að fljúga bílaleigubílnum en þá var svona svakaleg dæld í veginum við lestarteina sem lágu yfir hann og þetta myndaði bara svaka step down niður í brekku í götunni, bíllinn með 7 manns um borð höndlaði þetta eins og ekkert væri haha, tek það fram að þetta gerðist alveg óvart ! Þegar við komum upp í pitt var allt græjað í hvelli og skilað inn til KTM en svo áttum við að mæta í liðs myndatöku í göllum og alles svo það var hoppaði í galla og stillt upp í "official" myndatöku þar sem ótal ljósmyndarar smelltu af okkur mynd. En það bjargaði okkur að Bandaríska liðið var á undan okkur svo það var fullt af liði sem var mætt til að taka myndir og smellti auðvitað af okkur líka hehe !

Við drifum okkur svo bara úr göllunum og það var ákveðið að fara í matar og brautarskoðunarleiðangur. Byrjað var að kíkja á sérleið sem er næst pittinum en þá sérleið keyrum við alla dagana tvisvar, bæði í byrjun dags og lok dags. Sérleiðin var svo ekki merkilegri en gríðarlegt sikk sakk á flötum plægðum akri, jarðvegurinn moldarkenndur og ekkert annað en að reyna að halda bara í botni og bremsa sem síðast inn í beygjurnar ;) ! Við rúntuðum svo upp bæinn upp við pitt svæðið í leit að veitingastað og eftir að hafa flakkað á milli staða sem voru annaðhvort "take away" eða lokaðir fundum við fínann stað þar sem var hægt að fá samlokur, pasta og eitthvað svona létt, sem passaði okkur einmitt fínt. Á meðan við biðum eftir matnum fór Tedda yfir ýmis atriði sem var farið yfir á liðstjórafundinum.

Eftir fínan síðdegisverð og ís á eftir var haldið upp í pitt aftur en við áttum að mæta í skrúðgöngu fyrir opnunarathöfnina klukkan 5. Við röltum og fundum okkar stað í röðinni og þá var hinn eini sanni Chris Pfeiffer með svaka "stunt" sýningu á racer mótorhjóli, prjónaði útum allt í hringi og spólaði og var alveg hrikalegur. Svo mætti Matthias Dolderer sem er hrikalegur flugmaður og var með svakalega listflugs sýningu yfir brautinni, báðir aðilarnir eru sponsaðir af Red Bull sem er að gera svakalega hluti á þessari keppni, enda heitir keppnin núna "Red Bull Six Days" ! Röðin mjakaðist svo áfram og loks kom að íslenska liðinu að labba upp á svið og þar vorum við ökumennirnir kynntir fyrir framan fulla stúku af áhorfendum. Við fylgdumst svo með restinni af þjóðunum fara í gegnum kynninguna en svo röltum við upp í pitt en framundan voru einhver tónlistaratriði og önnur skemmtiatriði sem við höfðum ekki nennu í.

Á leiðinni röltum við í gegnum svaka sölubás þar sem allskyns hjóladót og föt voru til sölu og hægt að gera hrikalega góð kaup. Svo ákváðu þau hótel liðið að fara og borða kvöldmat á einhverjum veitingastað nálægt hótelinu en ég greip mér bara bita í einum sölubásnum hérna á svæðinu og hélt svo saddur og sæll upp í bíl og datt í hrikaleg rólegheit í tölvunni.

Ég skellti mér svo í sturtu og sjænaði strákinn til áður en ég kíkti einn hring í "Race Party-ið" sem var aftur í blússandi gangi við hliðiná pittinum og núna var ennþá meira af fólki. Ég greip mér smá kvöldnasl áður en ég hélt inn á Hótel Sprinter aftur og datt í afslöppun og kósý. Sofnaði svo uppí koju yfir einhverri ræmu á tölvuskjánum ;) !

Dagur 12 - 23.09.12

Vaknaði við vekjaraklukkuna og rétt stuttu seinna hringdi Kári og sagði að þeir væru á leiðinni að sækja mig til að fara að kíkja á sérleiðir. Ég var rétt búinn að slafra í mig morgunmatnum þegar þeir mættu á dyrnar hjá mér og við skelltum okkur af staði í leiðangur. Við byrjuðum að á að kíkja á sérleið sem er á degi 5, hún var mjög flott, lá um námu og var jarðvegurinn moldarkenndur, nokkrar brekkur en ekkert hrikalegt.

Næst ætluðum við að kíkja á sérleið sem er á degi 3 og 4, en þegar við komum að punktinum í GPS tækinu var ekkert að sjá og við komnir inn á göngustíg við dýragarð og það sem virtist vera elliheimili haha ! Það kom svo í ljós að það hafði ruglast einn tölustafur í hnitunum og vorum við búin að keyra algjöra vitleysu. Við leiðréttum hnitin og keyrðum í rétta átt að sérleiðinni, á leiðinni þangað keyrðum við framhjá hótelinu þeirra og ákváðum að skella okkur í hádegismat á pizzastað þar við hliðiná. Eftir svaka góða flatböku var haldið áfram að sérleiðinni eftir þá rúmlega 100km óþarfa útúrdúr. Sérleiðin var mjög flott, byrjaði á smá endurocross, drumbum og svo inn í netta motocross braut og svo um grjótabrekkur, allt mjög flott og skemmtilegt. Við kíktum svo á svakalega brekku sem þeir kalla "Devils Hill" sem var rétt hjá sérleiðinni og er sú brekka hluti af ferjuleið. Þetta var hrikalega löng brekka með grjóti, rótum, klöppum og öllum pakkanum, verður bara stuð að berjast þarna upp !

Við keyrðum svo að annarri sérleið sem er á degi 3 og 4 og lá hún í gegnum svaka skóg, hrikalega mikið af trjárusli, smá drulla, leirkennd mold og stemning ! Þegar við komum aftur í bílana var klukkan að orðin 4 og það var ákveðið að halda niður í pitt og græja dekkin okkar yfir í KTM þjónustupittinn og svona fínisera. Það endaði svo á að við fórum bara á öðrum bílnum niður í pitt við Gulli, Gunni, Kári og Daði, hin fóru heim á hótel. Við kláruðum að græja dekkin okkar, merkja þau en svo var KTM þjónustupitturinn lokaður svo við gátum ekki komið dekkjunum þangað í kassana okkar, verðum þá bara að gera það í fyrramálið. Strákarnir hjálpuðu mér svo að raða aðeins til afturí bílnum og ganga frá áður en þeir héldu til baka á hótelið.

Ég skellti mér í smá hjólatúr á fjallahjólinu um pittinn en þá var búið að pakka flestum sölubásum saman og lítið að skoða, ég spurði svo hliðverðina sem passa pittinn minn hvort það væri einhver súpermarkaður opinn en það var ekkert svona á sunnudegi nema bara bensínstöðin hérna fyrir neðan. Ég brunaði samt þangað því mig vantaði kók ;), á leiðinni upp í pitt aftur hjólaði ég í gegnum svaka tívolí sem er búið að setja upp hérna rétt fyrir neðan pittinn, verðum klárlega að kíkja í það eitthvað kvöldið í vikunni ! Þegar ég kom upp í bíl kláraði ég að græja nýja fína helluborðið í bílinn og eldaði mér svo svakalega "bixie" blöndu með spældum eggjum og át skammt sem átti að duga fyrir tvo haha ;) ! Svo dundaði ég við að skipuleggja drasl í mittistöskuna mína fyrir keppnina, spjallaði við Örnu Benný á skype og tók því svo rólega yfir friends á milli þess sem ég græjaði nýja frétt á síðuna.

Er núna að skríða uppí og hvíla mig fyrir morgundaginn en þá er stóri dagurinn mættur þegar allt heila klabbið fer af stað ! Gústi fer fyrstur af stað og sækir hjólið sitt í Parc Fermé klukkan 07:38, Haukur og Gulli fara svo saman klukkan 07:55 og ég, Kári og Daði förum svo allir saman klukkan 08:11, verður bara stuð ;) ! Veðurspáin er orðin svaka fín, núna spáir bara þurru allan tímann fyrir utan einhverja smá dropa aðfaranótt föstudagsins, hitinn á að vera í kringum 20 gráður svo þetta getur varla orðið betra, vonum bara að það haldist ! Haldiði endilega áfram að skilja eftir "comment" á fréttirnar, allir hérna hafa svaka gaman af að sjá þau frá ykkur !

ÁFRAM ÍSLAND !!!

Jonni